Samkvæmt 5. gr. laga nr. 40/2015 um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum er óheimilt að brenna bálköst nema samkvæmt skriflegu leyfi sýslumanns að fengnu samþykki slökkviliðsstjóra og starfsleyfi heilbrigðisnefndar. Ekki þarf þó leyfi til að brenna bálköst þar sem brennt er minna af efni en sem nemur 1 rúmmetra.
Við brennu skal gæta ýtrustu varkárni og gæta þess að valda ekki óþarfa ónæði eða óþægindum.
Sækja skal um leyfi til að brenna bálköst á þar til gerðu eyðublaði til sýslumanns í umdæmi þar sem brenna er fyrirhuguð. Umsókn skal afgreiða eins fljótt og verða má og eigi síðar en tíu virkum dögum eftir að umsókn berst.
Samkvæmt 24. gr. reglugerð nr. 325/2016 um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum skal með umsókn fylgja, eftir því sem við á:
a. Upplýsingar um fyrirhugaða stærð á bálkesti, staðsetningu og efni sem ætlunin er að brenna og
hvernig útbreiðsla elds verður takmörkuð.
b. Nafn og kennitala ábyrgðarmanns.
c. Upplýsingar um áætlaða tímasetningu.
d. Upplýsingar um aðgang að slökkvivatni og um áformaðan viðbúnað leyfishafa og viðbragðs-
áætlun.
e. Afrit (starfs)leyfis/umsagnar heilbrigðisnefndar og umsögn slökkviliðs.
Í umsögn heilbrigðisnefndar skal koma fram mat á umhverfislegum þáttum og hugsanlegum
áhrifum á nágranna.
Í umsögn slökkviliðs skal koma fram mat á útbreiðsluhættu og hvort viðbragðsráðstafanir
umsækjanda séu nægjanlegar og hvort þörf sé á öryggisvakt, sbr. 24. gr.
Að jafnaði er einnig krafist ábyrgðartryggingar hjá vátryggingafélagi vegna brennu áður en leyfi er veitt, sbr. heimild í 5. gr. laga 40/2015. Jafnframt er kallað eftir staðfestingu ábyrgðarmanns á að hann gangist undir þá ábyrgð sem áskilin er.