Leyfisveitingar hjá matvælaeftirliti

Matvælaeftirlitið gefur út starfsleyfi til fyrirtækja sem framleiða eða dreifa matvælum samkvæmt lögum nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum, en einnig til veitingastaða og  gististaða samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.

Athygli er vakin á því að ef ætlunin er að reka gististað eða veitingastað þarf einnig að sækja um rekstrarleyfi til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.  Þeir sem ætla að reka heimagistingu, sbr. lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, þurfa að skrá starfsemina hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu eða á miðlægu vefsvæði sem sýslumaður heldur utan um, sjá nánari upplýsingar á vefsíðunni www.heimagisting.is.  

Hvaða leyfi þarf ég að sækja um þegar ég er að hefja rekstur og hvar sæki ég um?

Veitingastaðir, veitingahús, skyndibitastaðir, krár, kaffihús, samkomusalir, veisluþjónsta, matarvagnar.

Starfsleyfi hjá heilbrigðiseftirliti, rekstrarleyfi hjá sýslumanni.

Gististaðir, hótel, gistiheimili, starfsmannabústaðir, íbúðagisting

Starfsleyfi hjá heilbrigðiseftirliti, rekstrarleyfi hjá sýslumanni. (heimagisting 90 daga hámark, skráningarskylda)

Matvöruverslanir, heildverslun með matvæli, framleiðsla matvæla, mötuneyti, flutninga- og dreifingamiðstöðvar, söluturnar, vatnsveitur, matsöluvagnar, sölubásar og matvælamarkaðir.

Starfsleyfi hjá heilbrigðiseftirliti

Framleiðendur og /eða innflytjendur matvælasnertiefna. Framleiðendur matjurta (eingöngu ræktun, pökkun og önnur vinnsla afurðanna er starfsleyfisskyld).

Skráningarskylda

Sjá nánari upplýsingar um matvælasnertiefni og matjurtir á heimasíðu Matvælastofnunar.

Hvernig er sótt um starfleyfi?

Sækja skal um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness, en sækja þarf um rekstrarleyfi hjá sýslumanni höfuðborgarsvæðisins.

Í hvað langan tíma gilda starfsleyfin?

Fyrir starfsemi sem er starfsleyfisskyld eingöngu samkvæmt matvælalöggjöfinni er gildistími ótímabundinn en önnur starfsleyfi eru gefin út til 12 ára. Ef starfsemin er á þróunarsvæði, eða breytingar á skipulagi eru í gangi eru starfsleyfin gefin út til styttri tíma.

Hvað kosta starfsleyfin?

Heilbrigðiseftirlitið auglýsir gjaldskrá sína í stjórnartíðindum árlega og eru gjöld innheimt árlega samkvæmt henni.